Búseti er nú að hefja byggingu á 20 íbúða fjölbýlishúsi við Skógarveg 16 í Fossvogi. Dagur B. Eggertsson borgarstjóri og Bjarni Þór Þórólfsson, framkvæmdastjóri Búseta, tóku í gær fyrstu skóflustunguna að fjölbýlishúsinu en framkvæmdir hefjast á næstu vikum. Gert er ráð fyrir að húsið verði tilbúið seinni hluta árs 2019.
Allar íbúðirnar verða með inngang frá svalagangi sem er aflokaður að hluta og með stæði í bílageymslu. Lyfta tengir bílakjallara við efri hæðir hússins. Í húsinu verða ellefu 2ja herbergja íbúðir og níu 3ja herbergja. Aðalhönnuður er Sigríður Ólafsdóttir arkitekt.
„Það er mjög jákvætt að Búseti sé að bjóða borgarbúum þennan valkost, að kaupa búseturétt í meðalstórum íbúðum á mjög eftirsóttum stað í Fossvogi," segir Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri. „Þetta er eitt grónasta hverfi borgarinnar og mjög vinsælt hjá fjölbreyttum hópi fólks. Það virðist hafa verið vandað til verka við hönnun hússins og hagkvæmar lausnir nýttar. Þar vekur athygli til dæmis sú nýbreytni að hafa bílakjallara undir húsinu opinn. Samstarf borgarinnar við húsnæðissamvinnufélög, eins og Búseta, hér og hvar um borgina er mikilvægur þáttur í að mæta þeim mikla húsnæðisskorti sem borgarbúar hafa átt við að etja.“
Bjarni Þór Þórólfsson, framkvæmdastjóri Búseta var ánægður á þessum tímamótum: „Við hjá Búseta erum afar spennt að reisa fjölbýlishús á þessum glæsilega stað. Það er mikill skortur á íbúðum á höfuðborgarsvæðinu og við erum að leggja okkar af mörkum til að svara þessari eftirspurn, þótt auðvitað þurfi mun meira en 20 íbúðir. Við höfum enda fundið fyrir miklum áhuga fólks á íbúðunum jafnvel þótt framkvæmdir séu ekki hafnar og ekki skemmir staðsetningin fyrir, Fossvogurinn er einn eftirsóttasti staður borgarinnar.“
Búseti er að klára byggingu 84 íbúða í síðasta áfanga svokallaðs Smiðjuholts, við Þverholt og Einholt, auk 11 raðhúsaíbúða við Ísleifsgötu. Meðal annarra byggingaverkefna sem framundan eru hjá Búseta, auk fjölbýlishússins við Skógarveg, er bygging 78 íbúða við Keilugranda og bygging 72 íbúða við Árskóga. Þá hefur félagið fengið vilyrði fyrir byggingarétti í Bryggjuhverfi þar sem Björgun hefur verið með starfsemi.